Varnarmálaráðherra Íslands

Á MEÐAN Ísland var hersetið af Bandaríkjamönnum voru samskipti hersins og íslenskra stjórnvalda formlega á höndum utanríkisráðuneytis Íslands og yfirherstjórnar bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli sem og stjórnvalda í Bandaríkjunum. Nú eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum ákváðu einhliða, þvert á alla samninga, að kalla herinn burt af landinu, hefur skapast mikil óvissa í öryggismálum landsins, í hverfulum heimi.

Undir forystu forsætisráðherra og utanríkisráðherra var reynt að ná einhverskonar samningum við Bandaríkjamenn um öryggismál Íslands, en ekkert náðist sem hald er í og sýnir það best framkomu Bandaríkjamanna gagnvart öðrum ríkjum þegar þau hafa ekki lengur bein not af þeim.

Íslensk stjórnvöld hafa alla tíð, frá því hervarnarsamningurinn var gerður, verið táldregin af Bandaríkjamönnum. Þeir sögðust ætla að verja okkur, en voru hér aðeins sem útvarðarstöð fyrir Bandaríkin. Þeir fengu íslensk stjórnvöld til að njósna um íslenska ríkisborgara sem þeir töldu sér andsnúna, þeir stóðu ekki með okkur þegar við börðumst fyrir tilverurétti okkar í landhelgisdeilunni, og nú síðast fengu þeir okkur til að samþykkja árásarstríð á hendur öðru fullvalda ríki.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa alltaf verið helstu talsmenn Bandaríkjamanna hér á landi. Þeir voru í ríkisstjórn þegar hervarnarsamningurinn var gerður og þeir eru í ríkisstjórn þegar honum er slitið einhliða í algerri óþökk þeirra. Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra þegar hann var gerður og nú vill svo undarlega til að sonur hans, Björn, er að gera samning við erlend ríki, um aðgerðir, sem að hluta til eru þær sömu og voru í hervarnarsamningnum við Bandaríkjamenn, þ.e. eftirlit í lofti og á legi í kringum Ísland.

Samningur sá sem varnarmálaráðherra Danmerkur og Björn Bjarnason gerðu fyrir Íslands hönd ætti að vera á höndum utanríkisráðherra, utanríkismálanefndar og Alþingis, en ekki Björns Bjarnasonar.

Björn Bjarnason virðist því einhverra hluta vegna líta á það sem hlutverk sitt að standa fyrir einhverskonar varnarsamningum fyrir Íslands hönd.

Nú er Björn dóms- og kirkjumálaráðherra, en enginn varnarmálaráðherra, svo vitað sé, nema hann telji að sér sé málið svo skylt, samanber framansagt, að hann telji sig eiga að vera varnarmálaráðherra Íslands. Það er með öllu óþolandi og ólíðandi hvað Björn Bjarnason er orðinn frekur til valdsins.

Samkvæmt stjórnsýslulögum fer utanríkisráðherra í samvinnu við forsætisráðherra með utanríkismál, en ekki dóms- og kirkjumálaráðherra. Því er það orðið áhyggjuefni allra hugsandi manna hve ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og framsóknar er, í þessu máli sem og öðrum, orðin gjörsamlega ráðlaus og óhæf til að stjórna landinu.

HAFSTEINN SIGURBJÖRNSSON

ellilífeyrisþegi.

Frá Hafsteini Sigurbjörnssyni:


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband