Vandi sjávarútvegsins.

Meginorsök þess hvernig komið er fyrir fiskstofnum við Íslandsstrendur, er notkun togveiðarfæra, botntrolls, snurvoðar og annara togveiðarfæra. Þessi veiðarfæri eru búin að eyðileggja stóran hluta landgrunnsins, með því að draga eftir botninum, fleiri tonna veiðarfæri, járnhlera, bobbinga, (kúlur sem eru neðst á veiðarfærinu, til að halda því á botninum), víra, keðjur og net, sem geta verið allt að 20 tonn að þyngd. Þessi veiðarfæri hafa ekki aðeins eyðilagt allan gróður á hafsbotninum, þara, þörunga, kóralla og annan botnsjávargróður, heldur drepur það einnig öll smádýr, marflær og önnur liðdýr, sem er hluti af lífskeðju sjávarins

Og síðast en ekki sist drepa þessi veiðarfæri ótölulegan fjölda bolfiskseiða á fyrstu árum ævi þeirra.

Þessi veiðarfæri þyrla upp miklu magni af leir og leðju, á leið sinni yfir botninn, sem sest í tálkn seiðanna og fiskanna (fiskarnir anda, taka súrefni úr sjónum í gegnum tálknin) og stórskaðar þá og jafnvel drepur fjölda þeirra.

Aðeins til viðmiðunnar fyrir þá sem þekkja ekkert  til þessara stórvirku veiðarfæra, má líkja eyðileggingarafli þeirra á hafsbotninum, við flugdreka sem færi yfir land, móa, mela, kjarr og gróið land, og drægi á eftir sér, yfir landið, 20 tonn af járni, vírum og netum, sem væri yfir 100m. á breidd og 100m á lengd. Hvernig ætli það land liti út eftir slíka meðferð?

Þetta er fullkomlega raunhæf samlíking, þó svo einhverjir vilji sjálfsagt meina að hlutir séu léttari í vatni, en á landi, þá er ljóst að botngróður í sjó er viðkvæmari, en gróður á landi.

Heilbrigð dómgreind og reynsla segja mér að þetta sé megin orsök þess hvernig komið er fyrir þorskstofninum og reyndar öllum fiskstofnum við Íslandsstrendur.

Sjálfsagt koma þarna fleiri orsakir til greina varðandi þorsksstofninn eins og ofveiði á loðnu, sandsíli og rækjum, helstu fæðu þorsksins, eins og fram kefur komið í greinum gamalla reyndra sjómanna,  en ég er sannfærður um að meginorsök þess vanda, að byggja upp þorsksstofninn, er togveiðarfæri sem eyðileggja lífríki hafsbotnsins og hindra sjálfbæra endurnýjun þess.

Vistvænar veiðar, þ.e. veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum, línuveiðar fyrst og fremst, netaveiðar í einhverjum mæli og fiskgildru veiðarfæri skemma ekki viðkvæmt vistkerfi landgrunnsins og geta auðveldlega veitt svotil allan þann afla, sem nú er leiflegt að veiða á Íslandsmiðum og komið í stað togveiðanna.

Til að snúa þessari óheillaþróun við, er aðeins til ein leið: Það er að takmarka allar togveiðar á landgrunni Íslands. Til að byrja með skal banna allar veiðar með snurvoð.

Snurvoð var upphaflega nokkuð kyrrstætt veiðarfæri, en hefur þróast upp í togveiðar, þar sem botninn er skrapaður á sama hátt og venulegt troll gerir. Annar áfangi gæti orðið að banna allar togveiðar innan 50 mílna landgrunnslínu og þriðji áfangi að banna allar togveiðar innan lögsögu Íslands.

Í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur þróunin orðið sú að sífellt meiri veiðiheimildir hafa farið til stórútgerða, sem eingöngu veiða sínar veiðiheimildir með togveiðiskipum

Þessi veiðiaðferð er afskaplega óhentug, með tilliti til náttúruverndar, nýtingar á auðlindinni og þjóðhagslega séð.

Fyrr í þessari grein hef ég bent á eyðileggingarmátt þessa veiðarfæris, með lélega nýtingu á þeim afla, sem togveiðiskip taka úr auðlindinni vil ég benda á mikið brottkast og sérstaklega hvernig hraðfrystitogararnir nýta þann afla, sem tekinn er úr sjó, þ.e. koma með þriðjung þess afla til lands, sem úr sjó er tekinn. Þetta eru aðeins flökin (32-35% af þyngd fisksins), hinu er hent. Hausum, innyflum, beinum og smáfiski, sem ekki passa í flökunarvélarnar og útgerðin telur ekki arðbært að hirða. Þetta, sem er 65-68% af veiddum afla, getur verið með góðri nýtingu allt að helmingur þess verðmætis sem skipið hirðir.

Frá þjóðhagslegu sjónarmiði vil ég benda á eftirfarandi: Orkueyðsla (olíueyðsla) margfallt meiri við aflað tonn, með togveiðum, en t.d. línuveiðum, minna hlutfall afla togveiðiskipa kemur til vinnslu í landi, en annara veiðiskipa og stofnkostnaður í skipum og veiðarfærum til togveiða, er meiri heldur en til t.d.línuveiði

Í fjölmiðlum, þegar sagt er frá gífurlegu aflaverðmæti þessara skipa úr einni veiðiferð, þá hafa skipstjórar þessara skipa stært sig af því að segja að þeir hafa tekið 900 tonn úr sjó, en koma með 300 tonn að landi.

Mikið er nú rætt um að finna þurfi leiðir til lagfæringar á fiskveiðikerfinu, þar sem núverandi kerfi virðist ekki ná tilætluðum árangri til verndunnar og uppbyggingar á fiskistofnunum við landið.

Ég tel að fyrsta breytingin á núverandi stjórnkerfi fiskveiða ætti að vera stjórnvaldsákvörðun um að setja reglur um hverskonar veiðarfæri megi nota til að taka þann afla úr sjó, sem leyfilegur er á hverjum tíma. Með svona reglugerðar ákvæði væri hægt að stýra nokkuð hvar veiðiheimildirnar lentu, skerða veiðiheimildir togveiðiskipa án þess að skerða veiðiheimildir útgerðar þeirra en auka heimildir skipa sem veiða með vistvænum veiðarfærum. Þetta þýddi annarsvegar breytingar á togskipum í vistvænt veiðiskip þ.e. línuskip eða sölu togskipa úr landi. Einnig myndi þetta efla möguleika hinna ýmsu smærri sjávarbyggða til að halda sínum hlut í aflaheimildinni á t.d. Vestfjörðum því þar eru engin togskip gerð út.

Annað veigamikið atriði til breytinga á kerfinu er að skylda alla aflaheimildaraðila til að setja allan afla sinn á markað, að viðlögðum háum fjársektum og upptöku aflaheimilda.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna til breytinga á fiskiveiðikerfinu tengist öðru atriðinu og ætti að minka brottkast verðlítils fisks, en það er þannig:

 

Eitt tonn af stórum þorski á hæsta verði á markaði þess söludags telst eitt þorsksígildstonn. Eitt tonn af smáum þorski á lægra verði á markaði þann sama dag telst samsvarandi hluti úr þorsksígildstonni sem nemur mismuninum á verði stóru og minni fiskunum. Þ.e. stóri og verðmesti fiskurinn telst ávallt eitt fiskígildiseining, en smái og verðminni fiskurinn það hlutfall úr fiskígildiseiningu, sem verðmunur fiskanna segir.

 

Þessi aðferð myndi örugglega stórminnka brottkast því raunverulegt gildi hvers fisks til kvóta er ávallt það sama. Tökum dæmi: Skip kemur með blandaðan afla að landi á markað, samtals 10 tonn. Þar af 5 tonn af stórum þorski sem fer í hæsta verðflokk, segjum 200 kr. kg. Samtals 100.000 kr og er það 5 þorskígildistonn af aflaheimild skipsins. Úr sömu veiðiferð landar skipið einnig á markað 3 tonnum af smáum þorski og fær fyrir það 100 kr.kg.,eða 30 000 kr.samtals. Þessi 3 tonn af smáum þorski reiknast því ekki sem 3 þorskígildistonn, heldur aðeins 1,5 tonn vegna helmings verðmunar.

Sama myndi gilda um veiðiheimildir annara fiskitegunda, t.d.ýsu og seinbíts.

Með þessari aðferð munu sjómenn sjá, að það þjónar engum tilgangi að henda verðminni fiski, því hann fær alltaf hæsta verð fyrir aflaheimildina.

Að lokum þetta: Fjöldi þjóða hafa stóraukið bann við togveiðum í lögsögu landa sinna, B.N.A., Chile, Noregur og fleiri, því þau vita og hafa viðurkennt að togveiðar eru stórhættulegar lífríki hafsins. Heilbrigð dómgreind hvers hugsandi manns hlýtur að krefjast þess að stöðvuð verði þessi eyðilegging á stæstu auðlind Íslensku þjóðarinnar.

Með því að stefna til vistvænna veiða endurnýjum við auðlindina, aukum lífsmöguleika landsbyggðarinnar til að lifa á auðlindinni og stoppum þá vitfyrringu sem fellst í því að láta stórútgerðir L.Í.Ú. og peningamenn ráða, sem einblína á gróðasjónarmiðið eitt.

  Hafsteinn Sigurbjörnsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband